Fótbolti

Jackson Martínez á leið til Atletico Madrid samkvæmt umboðsmanni hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jackson hefur orðið markakóngur í portúgölsku úrvalsdeildinni síðustu þrjú ár.
Jackson hefur orðið markakóngur í portúgölsku úrvalsdeildinni síðustu þrjú ár. vísir/getty
Umboðsmaður Jackson Martínez segir að Atletico Madrid hafi komist að samkomulagi við Porto um kaup á kólumbíska framherjanum.

Í samtali við AS segir umboðsmaðurinn, Luiz Henrique Pompeo að nafni, að gengið hafi verið frá félagaskiptunum í gær.

„Þetta er frágengið,“ sagði Pompeo. „Við viljum þakka AC Milan fyrir sýndan áhuga en það er bara hægt að velja eitt lið.

„Atletico Madrid er stórt félag sem hefur náð góðum árangri heima fyrir og í Evrópukeppnum.“

Talið er að Atletico Madrid greiði 35 milljónir evra fyrir Jackson sem skoraði 92 mörk í 132 leikjum með Porto.

Hann er nú staddur í Chile þar sem Suður-Ameríkukeppnin fer fram en Kólumbía mætir Argentínu í 8-liða úrslitum keppninnar á laugardaginn.

Jackson er ætlað að fylla skarð Marios Mandzukic í framlínu Atletico Madrid en Króatinn gekk á dögunum til liðs við Juventus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×