Hermann Hreiðarsson segir að það hafi ekki komið til tals að fá Gregg Ryder í þjálfarateymi sitt hjá Fylki í Árbænum. Ryder hefur áður starfað með Hermanni með góðum árangri.
Hermann var ráðinn sem þjálfari Fylkis á mánudag eftir að Ásmundi Arnarssyni var sagt upp störfum. Síðasti leikur Fylkis undir stjórn Ásmundar var 4-0 tap gegn ÍBV í bikarnum - gamla félaginu hans Hermanns.
Hermann þjálfaði ÍBV árið 2013 og naut þá aðstoðar Ryder sem er nú að þjálfa topplið Þróttar í 1. deildinni.
„Hann stóð sig frábærlega með mér en hvort að hann hafi verið í lykilhlutverki er annað mál,“ sagði Hermann í kvöldfréttum Stöðvar 2 en fréttina má sjá hér fyrir ofan.
„Hann stendur sig nú frábærlega í Þrótti en fyrsti kostur hjá mér var að halda Reyni [Leóssyni] sem aðstoðarþjálfara. Það væri það besta í stöðunni,“ sagði Hermann en Reynir verður áfram í þjálfarateyminu sem og Kjartan Sturluson markvarðaþjálfari.
Hermann segir að það hafi ekki verið á dagskrá hjá sér að fara aftur út í þjálfun í sumar.
„Ég ætlaði bara að njóta sumarsins og gera alla þessa hluti sem ekki er hægt að gera þegar maður er í boltanum.“
„En það hefur kitlað að fara aftur í þjálfun og ég þurfti ekkert að hugsa mig um þegar þetta kom upp. Það var að hrökkva eða stökkva.“
Hann útilokar ekki að fá nýja leikmenn til Fylkis þegar opnað verður fyrir félagaskipti á Íslandi þann 15. júlí.
„Það verður allt skoðað, annað væri bara heimska. Við munum sjá hvað verður í boði.“
Hermann: Ætlaði bara að njóta sumarsins
Tengdar fréttir

Ásmundur hættur hjá Fylki | Hermann tekur við
Hermann Hreiðarsson er nýr þjálfari Fylkis eftir að stjórn knattspyrnudeildar Fylkis ákvað að segja Ásmundi Arnarssyni upp störfum.

Ásgeir Börkur reifst við stjórnarmann: Var klárað á staðnum
Rifrildið átti sér stað inni í búningsklefa eftir 4-0 tap Fylkis gegn ÍBV um helgina. Hafði ekki áhrif á þjálfarabreytinguna.

Draumur Ásgeirs Barkar rættist: Hermann algjörlega rétti maðurinn fyrir Fylki
Fyrirliði Fylkis vildi fá Hermann Hreiðarsson sem þjálfara liðsins þegar þjálfaramálin voru í uppnámi í vetur.