Erlent

Tregafullur Tsipras vinnur að stuðningi við frumvörp innan gríska þingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Dagarnir hafa verið annasamnir hjá Alexis Tsipras síðustu daga.
Dagarnir hafa verið annasamnir hjá Alexis Tsipras síðustu daga. Vísir/AFP
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja stuðning við fjögur lagafrumvörp innan gríska þingsins til að tryggja frekari neyðarlán til grískra yfirvalda.

Grískir þingmenn munu greiða atkvæði um frumvörpin fjögur í kvöld, en samþykkt þeirra er forsenda þess að Evrópusambandið tryggi Grikkjum frekari lán til bjargar efnahag landsins.

Frumvörpin miða meðal annars að því að hækka eftirlaunaaldur, hækka virðisaukaskatt og að tryggja sjálfstæði hagstofu landsins.

Skrifaði undir til að forða Grikklandi frá stórslysi

Tsipras hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki trú á samkomulaginu sem náðist á mánudagsmorguninn í Brussel og hafa fjölmargir stjórnarþingmenn sagt að þeir ætli ekki að greiða atkvæði með frumvörpunum. Tsipras þarf því að öllum líkindum að treysta á stuðning stjórnarandstöðuþingmanna.

Falli stjórnarmeirihluti Tsipras má búast við að boðað verði til þingkosninga í landinu.

Skýrsla AGS flækir stöðuna

Nýbirt skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur enn bætt á óvissuna í kringum atkvæðagreiðsluna í gríska þinginu, en einnig þeirri í því þýska, sem einnig þarf að samþykkja samkomulag mánudagsins.

Skýrslu AGS var gerð fyrir fund leiðtoga ESB um helgina þar sem rök eru færð fyrir því að sjóðurinn muni ekki taka þátt í því að veita Grikkjum þriðja neyðarlánið, nema skuldir gríska ríkisins verði afskrifaðar mun meira en ríkisstjórnir í Evrópu, sér í lagi sú þýska, séu tilbúnar að samþykkja.

Ekki í aðstöðu til að taka upp drökmuna

Tsipras sagði í viðtali við gríska ríkissjónvarpið í gærkvöldi að þrátt fyrir að samkomulaginu við lánardrottna hafi verið þröngvað upp á Grikki, þá hafi það bjargað Grikklandi frá því að yfirgefa evrusamstarfið.

Sagði hann að samkomulagið yrði að ná fram að ganga. Grikkland sé ekki í neinni aðstöðu til að taka upp drökmuna á ný. Ekki einungis muni bankarnir fara í þrot heldur myndi slíkt leiða til mikilla vandamála annars staðar í samfélaginu.

Axlar fulla ábyrgð

Tsipras sagðist axla fulla ábyrgð á ýmsum þeim mistökum sem hafi verið gerð, auk þess að hafa skrifað undir samkomulag sem hann trúi ekki . Hann hafi hins vegar gert það til að koma í veg fyrir stórslys í Grikklandi – hrun fjármálakerfisins. „Nú ber mér skylda til að innleiða samkomulagið,“ sagði Tsipras.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×