Golf

Jason Day kláraði dæmið á Whistling Straits - Spieth kominn í efsta sæti heimslistans

Kári Örn Hinriksson skrifar
Jason Day var vel að sigrinum kominn.
Jason Day var vel að sigrinum kominn. Getty

Hinn 27 ára gamli Jason Day sigraði á PGA-meistaramótinu sem fram fór á Whistling Straits vellinum og kláraðist í kvöld en þetta er fyrsti sigur hans í risamóti á ferlinum.

Day er í hópi allra bestu og vinsælustu kylfinga heims en hann hefur mjög oft verið í toppbaráttunni á lokadegi í risamóti án þess þó að vinna.

Hann átti tveggja högga forystu fyrir lokahringinn og lét hana aldrei af hendi en hann lék frábært golf í dag eða á fimm höggum undir pari.

Day komst einnig í sögubækurnar í kvöld fyrir að vera fyrsti kylfingurinn í sögu golfíþróttarinnar til þess að leika fjóra hringi í risamóti á samtals 20 höggum undir pari en lykillinn að sigrinum voru án efa púttin og upphafshöggin hjá þessum ástralska kylfingi sem voru í hæsta gæðaflokki alla helgina.

Jordan Spieth endaði í öðru sæti á 17 höggum undir pari en með því fer hann upp fyrir Rory McIlroy í efsta sæti heimslistans í golfi eftir að hafa leikið ótrúlega vel nánast allt tímabilið.

McIlroy sjálfur átti titil að verja um helgina og lék ágætlega í mótinu, endaði á níu höggum undir pari sem verður að teljast gott miðað við þau meiðsli sem hafa plagað hann að undanförnu.

Ásamt því að skrá sig á spjöld golfsögunnar fyrir að sigra þetta fornfræga mót fær Day rúmlega 230 milljónir króna í verðlaunafé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×