Erlent

Styttist í að formlega verði boðað til kosninga í Grikklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza-flokksins, og Prokopis Pavlopoulos Grikklandsforseti.
Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza-flokksins, og Prokopis Pavlopoulos Grikklandsforseti. Vísir/AFP
Prokopis Pavlopoulos Grikklandsforseti mun í dag binda endi á þær stjórnarmyndunarviðræður sem staðið hafa síðan Alexis Tsipras sagði af sér embætti forsætisráðherra í síðustu viku.

Í frétt SVT kemur fram að allt bendi til að ekki muni takast að mynda nýja ríkisstjórn og muni forsetinn því þurfa að boða til nýrra þingkosninga.

Fram að kosningunum mun bráðabirgðaríkisstjórn stýra landinu undir stjórn Hæstiréttar landsins. Verður hlutverk hans einungis bundið við að sjá um daglegan rekstur gríska ríkisins.

Skoðanakannanir benda til þess að Tsipras njóti mikils stuðnings í landinu og eru möguleikar hans á kosningasigri taldir miklir.

Fulltrúar fyrrum ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst stjórnarmyndunarviðræðum þeim sem hafa staðið yfir síðustu daga sem tímasóun.

Verði boðað til kosninga, líkt og fastlega er búist við, er talið að þær fari fram 20. september næstkomandi.


Tengdar fréttir

Stofna flokk gegn skuldasamningi

Tuttugu og fimm óánægðir þingmenn SYRIZA-flokksins í Grikklandi hafa stofnað nýjan flokk, sem heitir Þjóðareining.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×