Af þeim 470 einstaklingum sem bíða þess að afplána dóma sína mun hluti þeirra afplána með samfélagsþjónustu. Því mun þessi hópur ekki allur afplána bak við lás og slá. Páll segir biðlistann of langan. „Þetta er ofboðslega mikið. Það þarf að velta fyrir sér lausnum á þessum vanda því það er ekki nóg að fjölga bara plássum eins og verið er að gera. Það þarf til dæmis breytingar á reglum um reynslulausn og samfélagsþjónustu,“ segir Páll. „Talan hefur vaxið með árunum. Við sáum töluna fara hækkandi árið 2008 og höfum gert allt mögulegt til að bregðast við henni. Við höfum kynnt stöðu mála fyrir Alþingi og hjá eftirlitsaðilum. Við fylgjumst vel með þessum svokallaða boðunarlista.“
Enginn biðlisti fyrir átta árum

Í fyrra hófu 190 einstaklingar afplánun óskilorðsbundinna dóma og 39 til viðbótar afplánun vararefsingar. Það ár voru einnig 118 einstaklingar settir í gæsluvarðhald til skemmri tíma.
Páll segir enga biðlista eftir afplánun hafa verið árin 2007 og 2008. Biðlistar voru eftir afplánun á milli 1990 og 1995 en þegar ný álma var tekin í gagnið á Litla-Hrauni hafi biðlistinn styst og síðan orðið að engu. „Það var nánast enginn á þessum lista fyrir átta árum. Reglan var sú að menn komu inn í fangelsi eftir að það var búið að dæma þá, punktur. Nú eru hins vegar aðrir tímar sem er ekki gott,“ segir Páll.
Fáir fangar á Íslandi

Fangelsisdómum á Íslandi hefur fjölgað en á sama tíma hefur fangelsisrýmum ekki fjölgað nægilega til að halda í við dómafjöldann. „Á síðustu árum höfum við verið að sjá fjölgun dóma í fíkniefnabrotum, ofbeldisbrotum og þá sér í lagi kynferðisbrotamálum. Á hinn bóginn erum við að sjá fækkun hvað varðar ölvunarakstursbrot, nytjatöku og skjalafals og þess háttar brot.“ Hann bendir einnig á að erlendum föngum hafi fjölgað hér á landi á síðustu árum sem skýri að einhverjum hluta þessa fjölgun. Ekki sé um að ræða erlenda ríkisborgara sem búi hér á landi heldur færist það í vöxt að útlendingar komi hingað til lands gagngert í þeim tilgangi að brjóta lög. „Þeir einstaklingar skera sig ekki úr hvað varðar brotaflokka og virðast þeir falla inn í það sem hefur verið að gerast hér á landi,“ segir Helgi.
„Það er algjörlega ólíðandi að fólk komist ekki í fangelsi þegar búið er að ákveða að þurfi að taka það út úr samfélagi manna,“ segir Páll.
Anna Kristín Newton, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir ótækt að menn bíði lengi eftir að hefja afplánun. „Til þess að refsing beri sem bestan árangur þá þarf hún að fylgja sem skjótast í kjölfar dóms, þannig er það bara. Ef það líður mjög langur tími þá er fólk líklega uppstökkt og gramt út í kerfið frekar en sjálft sig,“ segir Anna Kristín og bætir við að biðin eftir að hefja afplánun geti haft í för með sér slæmar afleiðingar. Þeir sem bíði upplifi að ýtt sé á pásutakka á lífi þeirra. „Það getur til dæmis verið erfitt að hefja nám ef þú sérð ekki fram á að þú getir klárað það og svo byrjar maður ekki í nýju starfi og segir við yfirmann sinn að maður sé á leið í fangelsi einhvern tíma á næstunni,“ segir Anna.
Anna telur það haldast í hendur hve margir bíði eftir að hefja afplánun í dag og að dómstólar dæmi þyngri refsingar í ákveðnum brotaflokkum en áður. „Það varð til dæmis bylting í fíkniefnabrotunum og kynferðisbrotin hafa tekið miklum stakkaskiptum. Ég er ekki að segja að það sé rangt að dæmd sé þyngri refsing í þessum brotaflokkum en það hefur óhjákvæmilega þessi áhrif.“
Stjórnvöld verða að taka á málum

Stofnunin háð vilja þingsinsPáll segir málaflokkinn algjörlega á höndum þingsins og það sé þingsins að veita fjármuni til stofnunarinnar ef á að gera betur í málefnum fanga á Íslandi. „Það hefur skipt grundvallarmáli að innanríkisráðuneytið hefur sýnt okkar stöðu skilning og við eigum sterka samherja þar í þessari baráttu. Baráttan hefur ekki verið eins einföld þegar kemur að alþingismönnum. Þetta hefur ekki þótt sérlega spennandi efni á þeim bæ. Það er ekki nóg að setja lög um það að fjölga til dæmis í rafrænu eftirliti ef það fylgir ekki fjármagn í það. Sama gildir með önnur úrræði,“ segir Páll. „Með niðurskurði eða óbreyttum fjárframlögum ríkisins verðum við einfaldlega að fækka plássum. Þegar dregið er úr rekstrarframlögum til þessa málaflokks þýðir það að plássum í fangelsi fækkar. Fyrsta skylda mín sem forstöðumaður er að reka batteríið innan fjárheimilda sem Alþingi ákveður og því er það fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort og hvenær plássum verði fækkað.“