Yfirvöld í Austurríki munu draga úr ferðafrelsi flóttamanna um landið, skref fyrir skref, á næstunni. Þannig munu þeir koma í veg fyrir að flóttamenn komist óáreittir inn í Austurríki og í gegnum það til Þýskalands. Landamærum verður aftur lokað.
Reglur varðandi flóttafólk voru settar til hliðar í vikunni svo að þúsundir flóttamanna kæmust frá Ungverjalandi til Austurríkis og Þýskalands.
„Við höfum alltaf sagt að þetta væri neyðartilvik þar sem við yrðum að bregðast fljótt við,“ segir Werner Fayman, kanslari Austurríkis.
Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa þrettán þúsund flóttamenn farið yfir landamæri Ungverjalands og Austurríkis á einungis nokkrum dögum. Fayman tilkynnti þessa breytingu eftir að hann ræddi við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, í síma í dag.

