Alexander Rossi mun keyra fyrir Manor liðið í næstu fimm keppnum. Fyrsta keppnin verður í Singapúr um komandi helgi.
Rossi tekur sæti Roberto Merhi sem verður áfram hjá liðinu sem varaökumaður. Hann mun taka þátt í rússnesska kappakstrinum og í síðustu keppni tímabilsins í Abú Dabí.
Keppnin í Singapúr um helgina verður fyrsta Formúlu 1 keppnin sem Rossi tekur þátt í.
Rossi hafði áður verið varaökumaður Caterham, hann tók þátt í þremur æfingum árin 2013 og 2014.
„Ég er afar þakklátur fyrir tækifærið sem Manor Marussia er að veita mér. Ég er ánægður með að liðið hefur trú á mér, ég er búinn að vera tilbúinn undir þetta í dágóðan tíma,“ sagði Rossi.
„Singapúr brautin er mjög skemmtileg og frumraunin gæti ekki komið á betri tíma. Það er mikil vinna framundan og ég hlakka mikið til að enda 2015 með hvelli.
John Booth, keppnisstjóri Manor segir að Rossi eigi eftir að „standa sig mjög vel“.
