Hannes leikur með NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni og var starfsmaður félagsins, Patrick Pothuizen sem er eins konar liðsstjóri, kokhraustur í aðdraganda leiksins.
„Hann fullyrðir að Holland muni stúta okkur. Hann ætlar að þrífa allt húsið mitt ef Holland vinnur okkur ekki. Hann er það sigurviss,“ sagði Hannes Þór í samtali við Vísi í aðdraganda leiksins.
Og viti menn, kappinn stóð við stóru orðin því í dag birtir Hannes Þór mynd af hollenska félaga sínum með ryksuguna í hönd.
„Í dag stóð Patrick Pothuizen við loforð sitt og fór afar fagmannlega með ryksuguna. Hann hefur lært dýrmæta lexíu: Ekki vanmeta Ísland!“