„Það er frábært að koma og jafna Ayrton. Ég elskaði að horfa á hann keyra hérna. Ég hefði ekki getað þetta án liðsins og ég vil þaka því fyrir,“ sagði Hamilton á verðlaunapallinum.
„Lewis náði betri ræsingu, það var gott að geta barist til baka. Fjórða sæti hefði ekki verið ásættanlegt í dag. Eftir allt sem á undan var gengið var annað sæti það besta sem ég gat náð,“ sagði Nico Rosberg á verðlaunapallinum.
„Gaman að vera hér, því miður fæ ég ekki stóra bikarinn hér í dag. Ferrari er á réttri leið, við erum betri en fólk hélt við yrðum í upphafi tímabilsins,“ sagði Sebastian Vettel á verðlaunapallinum.
„Mér er létt, það voru talsvert erfitt fyrir Lewis að klára keppnina. Víbringur í dekkjum var að valda vandræðum,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.

„Það er þreytandi að tapa sætum á miðjum beinum kafla, ekki einu sinni á bremsusvæðinu. Já við munum vera þeir einu sem geta ógnað Mercedes í náinni framtíð,“ sagði Fernando Alonso sem var á suðupunkti alla keppnina. Hann heldur áfram andliti út á við en 11. sæti fyrir tvöfalda heimsmeistarann er ekki gott hjá goðsagnakennda McLaren-Honda liðinu.
„Fernando þurfti ekki að láta heyra í sér hér. Það er mikið af mikilvægu fólki hér í dag. Við erum á heimavelli Honda og með forseta Honda á svæðinu ásamt fleirum. Þetta voru ekki uppbyggjandi ummæli en það er ekki ástæða til að verða reiður yfir þessu. Við munum ná árangri. Jenson (Button) gerði tveggja ára samning í fyrra sem er enn í gildi og það er ekki flóknara en það. Jenson og Fernando eru samningsbundnir McLaren og verða þar á næsta ári,“ sagði Ron Dennis, framkvæmdastjóri McLaren. Hann slær þar með á orðróm um að Button ætli að fara annað. Líklega er Button þó enn kleift að hætta alveg að keppa í Formúlu 1.
„Þetta var það besta sem við gátum gert í dag miðað við hvar við byrjuðum. Við erum á réttri leið og að ná stöðugum framförum,“ sagði Kimi Raikkonen á Ferrari sem endaði fjórði í dag.
Hér fyrir neðan má finna úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.