Golf

Henrik Stenson efstur á East Lake

Henrik Stenson leit vel út í gær.
Henrik Stenson leit vel út í gær. Getty
Svíinn Henrik Stenson lék frábærlega á fyrsta hring á Coca Cola meistaramótinu í gær en hann lék fyrsta hring á East Lake vellinum á 63 höggum eða sjö höggum undir pari.

Aðeins 30 stigahæstu kylfingar PGA-mótaraðarinnar hafa þátttökurétt í mótinu sem er lokamót hennar þetta tímabilið en þessir 30 kylfingar munu skipta á milli sín rúmlega fimm milljörðum króna í verðlaunafé að því loknu.

Englendingurinn Paul Casey er einn í öðru sæti á fimm höggum undir pari en Rory McIlroy og Zach Johnson deila þriðja sætinu á fjórum undir.

Þar á eftir kemur Jordan Spieth á tveimur undir en Jason Day, sem hefur verið magnaður að undanförnu, lék fyrsta hring á 69 eða á einu undir pari.

Bein útsending frá öðrum hring á East Lake hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×