Himinninn á dvergplánetunni Plútó er blár og á yfirborðinu má finna frosið vatn. Þetta kom í ljós þegar myndir frá geimfarinu New Horizons bárust til Jarðar í síðustu viku. Liturinn myndast við endurvarp sólarljós af nítrogenögnum í gufuhvolfi Plútó.
„Hver myndi búast við bláum himni í Kuiperbeltinu? Þetta er unaðslegt,“ er haft eftir Alan Stern á vef NASA. Hann fer fyrir hópi vísindamanna sem rannsökuðu gögnin frá New Horizons.
Það sem einnig hefur vakið athygli vísindamanna er að á yfirborði Plútó má finna frosið vatn. Það finnst þó eingöngu á afmörkuðu svæði.

„Á stórum hluta Plútó er ekki hægt að finna vatn á yfirborðinu,“ segir Jason Cook, einn vísindamanna sem fór yfir gögnin. Hann segir teymið vera að vinna að því að skilja af hverju svo sé.
Svæðið á myndinni hér að ofan er um 450 kílómetra breitt. Samkvæmt vísindamönnum er vatnið á plánetunni rautt (Sjá mynd hér að neðan), en þeir hafa ekki gert sér grein fyrir enn hvers vegna það er.
New Horizons geimfarið er nú í rúmlega fimm milljarða kílómetra fjarlægð frá Jörðu og NASA segir geimfarið virka fullkomlega.
