Félagsmenn SFR ætla að sýna samningsvilja sinn í verki með því að mæta við Stjórnarráðið fyrir ríkisstjórnarfund klukkan korter yfir níu í fyrramálið.
„Við viljum reyna að ná til ríkisstjórnarinnar og vekja athygli á okkar kröfum og því að við höfum verið samningslausir í á fimmta mánuð,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
„Þá höfum við farið fram á að fá að afhenda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, yfirlýsingu þar sem við ætlum að krefja hann um að það verði samið við okkur.“
Árni segir að ekki hafi verið boðað til nýs samningafundar í kjaradeilu SFR, Landssambands lögreglumanna og Sjúkraliðafélags Ísland við ríkið en upp úr viðræðunum slitnaði á þriðjudaginn. Að óbreyttu hefst verkfall félagsmanna SFR og sjúkraliða þann 15. október næstkomandi en lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt.

