Martin gerði nýjan samning við KR fyrir tímabilið og er hann samningsbundinn liðinu í tvö ár til viðbótar.
„Ég er vonsvikinn með að hafa bara byrjað átta leiki í sumar. Ég myndi byrja meira en átta leiki í öllum liðum deildarinnar, meira að segja FH. Ég er vonsvikinn með að hafa fengið svona fá tækifæri í byrjunarliðinu,“ sagði hann í viðtali við Vísi á laugardag.
Sjá einnig: Gary Martin: Væri byrjunarliðsmaður í öllum hinum liðum deildarinnar
Vísir bar ummælin undir Bjarna Guðjónsson, þjálfara KR, sem reiknar ekki með öðru en að Martin verði áfram í herbúðum félagsins.
„Ég er ekki búinn að lesa viðtölin og öllu jöfnu tjái ég mig ekki um stöðu ákveðinna leikmanna í hópnum,“ sagði Bjarni.
„Það sem ég get sagt um Gary er að hann á tvö ár eftir af samningi sínum og við lítum á hann sem hæfileikaríkan leikmann. Ég sé ekki fyrir mér að hann fari frá KR.“

„Eins og ég hef margoft sagt þá reynum við að velja besta liðið hverju sinni. Við tökum ákvörðun út frá því hvernig menn standa sig á æfingum í vikunni fyrir leiki og fleira slíkt,“ sagði Bjarni.
„Í augnablikinu er ég leikmaður KR en í næstu viku gæti ég verið seldur, ég veit það ekki,“ sagði Martin í áðurnefndu viðtali en KR hafnaði til að mynda tilboði frá Breiðabliki fyrr í sumar.