Það hellirigndi á sunnan- og suðaustanverðu landinu í alla nótt, einkum á svæðinu frá Mýrdalsjökli í vestri og austur til Hafnar í Hornafirði. Ár og lækir á þessu svæði eru í miklum vexti og varaði Veðurstofan fólk við því í gærkvöldi, að vöð yfir vatnsföll gætu verið varasöm.
Ekki hafa borist fregnir af vegarskemmdum en lögreglan og Vegagerðin fylgjast með ástandinu.
Mjög mikið rennsli er í ám víðast hvar á landinu. Af sautján virkum vatnamælum Veðurstofunnar sem senda upplýsingar inn á vefsíðuna, mælist mjög mikið rennsli í 15 ám, en venjulegt rennsli mælist nú aðeins í Lagarfljóti og Selá á Austfjörðum.
Víða var gott veður í öðrum landshlutum í nótt. Klukkan þrjú mældist til dæmis tæplega 13 stiga hiti á Akureyri í þurru og stilltu veðri. Áfram er víða spáð. rigningu, en þó ekki eins mikilli og undanfarið.
Ár og lækir í miklum vexti vegna hellirigningar
Gissur Sigurðsson skrifar
