Inter og Juventus gerðu markalaust jafntefli í stórleik helgarinnar í ítölsku úrvalsdeildinni.
Leikurinn var gríðarlega harður en fjögur gul spjöld fóru á loft á fyrstu 16 mínútunum og átta í heildina.
Þjóðverjinn Sami Khedira komst næst því að skora þegar skot hans hafnaði í stöng Inter-marksins um miðjan seinni hálfleik.
Inter er í 3. sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu þremur leikjum eftir að hafa unnið fyrstu fimm leiki sína.
Ítalíumeistarar Juventus eru hins vegar í 14. sæti með einungis níu stig.

