Allt stefnir í að landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson semji við lið Njarðvíkur í Domino’s-deild karla í körfubolta. Framherjinn samdi til sex vikna
við þýska 1. deildar liðið Mitteldeutscher BC þann 29. september. Ekki er útlit fyrir að vera hans hjá félaginu verði lengri.
Haukur Helgi átti einnig í viðræðum við Grindavík og Stjörnuna en samkvæmt heimildum Vísis kom ekkert út úr þeim. Allar leiðir liggja til Njarðvíkur. Það eina sem stendur í vegi fyrir að tilkynnt verði um skiptin eru viðræður við erlent félag.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, staðfesti í samtali við Vísi að félagið hefði verið í viðræðum við kappann undanfarið en ekki væri búið að ganga frá neinu. Hann taldi að málin myndu skýrast á næstu dögum.
Nauðsynlegur styrkur fyrir Njarðvík
Haukur Helgi fór á kostum með íslenska landsliðinu í riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta í Berlín í september. Hann var næststigahæsti leikmaður Íslands með 12,8 stig að meðaltali í leik og var hann með 56 prósenta nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Aðeins fimm leikmenn voru með betri nýtingu í riðlakeppninni.
Ljóst er að Haukur Helgi yrði gríðarlegur styrkur fyrir Njarðvíkinga sem hófu tímabilið í baklás þegar ljóst var að Stefan Bonneau væri með slitna hásin og yrði ekki með liðinu í vetur. Bonneau fór á kostum með Njarðvíkingum í fyrra þegar liðið féll út í undanúrslitum Domino’s-deildarinnar eftir háspennu-lífshættu einvígi gegn KR.
Haukur Helgi hafði verið í viðræðum við nokkur íslensk félög áður en tilboð MBC kom óvænt upp á borðið. Njarðvík hefur unnið tvo leiki af þremur í upphafi tímabils.
Ekki náðist í Hauk Helga við vinnslu fréttarinnar.
Haukur Helgi á leið til Njarðvíkur
Kolbeinn Tumi Daðason og Tómas Þór Þórðarson skrifa

Mest lesið



„Körfuboltaguðirnir voru búnir að ákveða“
Körfubolti

Amorim vildi ekki ræða framtíðina
Fótbolti

Ægir valinn verðmætastur
Körfubolti

Tottenham vann Evrópudeildina
Fótbolti



„Okkur er alveg sama núna“
Fótbolti
