
Þá er lagt til að hámarksgreiðslur í orlofi hækki úr 370.000 krónum í 500.000 krónur. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi að fullu um áramótin 2018 en að á árinu 2017 verði stigið milliskref á þann veg að hvort foreldri fái fjóra mánuði í orlof og tveimur sé skipt á milli þeirra.
„Markmið þess að leggja til hækkun á hámarksfjárhæð er að virða rétt barna til samveru við báða foreldra og að jafna stöðu foreldra til þátttöku á vinnumarkaði og umönnunar barna. Afleiðingar lækkunar hámarksfjárhæðarinnar hafa verið þær að sífellt færri feður taka fæðingarorlof þar sem tekjur þeirra eru að jafnaði hærri en tekjur mæðra. Mæður eiga af eðlilegum ástæðum erfiðara með að stytta fæðingarorlofstímabil sitt þó margar þeirra lækki núorðið mikið í launum þá mánuði sem þær eru í fæðingarorlofi,” segir í greinargerð með frumvarpinu.
Ekki er kveðið á um hækkun lágmarksgreiðslna eða fæðingarstyrkja sem nýtast þeim sem eru í lágu starfshlutfalli, í námi eða utan vinnumarkaðar. Þær greiðslur hækki án aðkomu Alþingis.