Íslenska 19 ára landsliðið í badminton endaði í 33. sæti á Heimsmeistaramótinu í Perú sem lauk um helgina. Íslenska liðið vann tvo síðustu leiki sína við Kosta Ríka og Ítalíu.
Íslenska 19 ára landsliðið vann Kosta Ríka 3-0 á HM í gær. Kristófer Darri Finnsson og Alda Karen Jónsdóttir unnu Ana Laura Martinez Vega og Zhicong Alejandro Zheng Chen 2-0 í tvenndarleik (21-11 og 21-7). Pálmi Guðfinnsson mætti Gianpiero Cavallotti Villalobos og vann 2-0 í einliðaleik karla (21-9 og 21-12) og Arna Karen Jóhannsdóttir vann Lauren Villalobos Murillo 2-0 í einliðaleik kvenna (21-13 og 21-12).
Ísland mætti því Ítalíu í leiknum um 33. sætið og vann hann 3-1. Kristófer Darri Finnsson og Alda Karen Jónsdóttir unnu 2-0 í tvenndarleiknum (21-19 og 21-14). Pálmi Guðfinnsson tapaði einliðaleik sínum fyrir Fabio Caponio 0-2 (13-21 og 22-24) en Arna Karen Jóhannsdóttir svaraði og vann Silvia Garino í einliðaleik kvenna 2-0 (21-15 og 21-14). Kristófer Darri Finnsson og Pálmi Guðfinnsson tryggðu íslandi svo sigurinn með því að vinna þá Lukas Osele og Kevin Strobl í tvíliðaleik en íslensku strákarnir unnu 2-1 eftir oddalotu (17-21, 21-18 og 21-11).
Með því tryggðu íslensku krakkarnir sér 33. sæti á heimsmeistaramótinu en það er nóg eftir hjá krökkunum sem koma ekki heim frá Perú alveg strax því einstaklingskeppnin hefst á þriðjudaginn.
