Golf

Birgir Leifur lék aftur undir pari á öðrum leikdegi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birgir Leifur púttar hér á Íslandsmótinu í höggleik árið 2014.
Birgir Leifur púttar hér á Íslandsmótinu í höggleik árið 2014. Vísir/Daníel
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, lauk leik á öðrum degi á öðru stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina á einu höggi undir pari en hann er að tveimur dögum loknum á sex höggum undir pari.

Birgir Leifur komst beint inn á annað stig úrtökumótsins eftir góðan árangur á Áskorendamótaröðinni í sumar en hann lék frábært golf á fyrsta leikdegi í gær. Eftir að hafa fengið skolla á fyrstu holu krækti hann í fjóra fugla og einn örn á fyrsta hring.

Birgir Leifur hóf leik í dag líkt og í gær á skolla en fylgdi því eftir með þremur fuglum á næstu fimm holum. Birgir tapaði hinsvegar höggi á síðustu tíu holum dagsins en hann fékk þrjá skolla, tvo fugla og fimm pör á síðustu tíu holunum.

Birgir Leifur deilir þegar þetta er skrifað þriðja sæti með fjórum öðrum kylfingum en það eru ekki allir kylfingar komnir í hús. Mótið sem fer fram á Las Colinas golfvellinum í Alicante lýkur á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×