Fótbolti

Alfreð: Ætlum að tryggja okkur áfram gegn Bayern

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð fagnar sigurmarkinu sem Felipe Pardo skoraði.
Alfreð fagnar sigurmarkinu sem Felipe Pardo skoraði. vísir/p.papadopulous
Alfreð Finnbogason, framherji Olympiacos í Grikklandi, spilaði síðustu níu mínúturnar á móti Dinamo Zagreb á miðvikudagskvöldiðið þegar grísku meistararnir unnu mikilvægan heimasigur í Meistaradeildinni, 2-1.

Olympiacos vann Dinamo tvær leikvikur í röð og með stigunum þremur sem Alfreð tryggði liðinu í Lundúnum gegn Arsenal er það komið með níu stig líkt og Bayern München.

Alfreð og félagar eiga eftir útileik gegn Bayern München og heimaleik gegn Arsenal þar sem það má tapa með einu marki. Eitt stig í öðrum hvorum leiknum tryggir grísku meistarana áfram.

Sjá einnig:Tíu staðreyndir um sögulegt mark Alfreðs gegn Arsenal

„Þetta er ekkert búið. Við þurfum enn þá eitt stig. Við förum til Þýskalands til að ná í eitt eða þrjú stig og tryggja okkur áfram,“ sagði Alfreð við gríska fjölmiðla eftir leikinn.

Framherjinn hefur lítið fengið að spila að undanförnu en var engu að síður sáttur með eigin frammistöðu.

„Ég er ánægður því síðustu tíu mínúturnar pressuðum við mikið og settum fleiri menn fram. Ég gerði það sem þjálfarinn bað mig um að gera,“ sagði Alfreð sem segir stefnu liðsins alveg skýra í Meistaradeildinni.

„Við ætlum okkur fyrsta sætið í riðlinum. Við viljum eitt eða þrjú stig í München, en við erum búnir að sanna að við getum náð úrslitum í þessum riðli,“ sagði Alfreð Finnbogason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×