Norður-Írinn Graeme McDowell er í forystu eftir 36 holur á OHL Classic sem fram fer í Mexíkó en hann hefur leikið fyrstu tvo hringina á El Camaleon vellinum á 12 undir pari.
McDowell, sem er afar vinsæll og geðþekkur kylfingur, hefur verið í mikilli niðursveiflu á árinu en átti sinn besta hring í langan tíma í dag og kom inn á 63 höggum eða átta undir pari.
Bandaríkjamaðurinn Derek Fathauer er einu höggi á eftir McDowell á 11 undir pari en nokkrir kylfingar koma þar á eftir á tíu og níu höggum undir.
Á meðan að PGA-mótaröðin stoppar í Mexíkó fer eitt veglegasta mót ársins fram á Evrópumótaröðinni í Kína en í Shanghai fer BMW meistaramótið fram.
Þar leiðir danski kylfingurinn Lucas Bjerregaard með þremur höggum eftir tvo hringi en hann er á 12 undir pari. Spánverjinn Sergio Garcia og Tælendingurinn Thongchai Jaidee koma næstir á níu undir.
Bæði mótin eru í beinni útsendingu á Golfstöðinni um helgina en útsendingartíma má nálgast hér.
McDowell efstur í Mexíkó eftir tvo hringi
