Zlatan hefur að vanda farið mikinn í aðdraganda leikjanna og sagði í viðtali á dögunum að Evrópumótið yrði ekki eins án sín.
Sjá einnig:Lars léttur í Varsjá: Aron Einar er stundum til vandræða
Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem hann segir að stórmót verði tómlegra án sín, en hann sagði það sama um HM í Brasilíu eftir að Portúgal afgreiddi Svía í umspili fyrir heimsmeistaramótið í nóvember 2013.
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, þjálfaði Zlatan hjá sænska landsliðinu í átta ár frá 2001-2009 og fór með honum á fjögur stórmót.
Hann var spurður út í þessi ummæli Zlatans á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Póllands í gær. „Hann hefur mikið sjálfstraust,“ sagði Lars en benti mönnum nú á að þetta væri líka sálfræðistríð hjá hinum bráðskarpa Zlatan.
„Hann er klár og hefur gaman að því að segja svona hluti. Þið verðið að taka þessu með smá fyrirvara,“ sagði Lars.

Lars sagðist ekki geta spáð fyrir um hvort sínir gömlu félagar og samlandar komist í gegnum danska liðið og tryggi sér farseðilinn á EM. „Ég hef bara ekki séð neina leiki því við erum alltaf að spila á sama tíma,“ sagði hann.
„Eins og þið vitið hefur sænska liðið ekki náð góðum úrslitum að undanförnu og því er pressa á því. Þetta verða hörkuleikir eins og eru alltaf á milli þessara þjóða því þetta er nágrannaslagur.“
Sjá einnig:Strákarnir spila í Abu Dhabi í janúar
Aðspurður hvernig það væri að þjálfa Zlatan sagði Lars það ekki auðvelt. Ástæðan er ekki að hann sé svo erfiður - þó Lars hafi reyndar einu sinni hent honum úr landsliðinu - heldur er stundum erfitt að vera með svona frábæran mann í liðinu.
„Það er áskorun fyrir þjálfara að vera með svona yfirburðarmann í sínu liði. Fótbolti er liðsíþrótt og maður þarf að reyna að kreista það besta út úr öllum leikmönnunum,“ sagði Lars.
„Þjálfarar með svona leikmenn innan sinna raða verða að byggja í kringum hann og ná jafnvægi með því að fá það besta út úr honum sem og öðrum leikmönnum. Þetta er það sem Pólland hefur gert með Robert Lewandowski,“ sagði Lars Lagerbäck.