Breytingatillögur við fjáraukalög fjármálaráðherra verða afgreiddar úr fjárlaganefnd í dag. Vigdís Hauksdóttir, formaður nefndarinnar, segist eiga fastlega von á að klára verkið, með brýnum tillögum, á fjárlagafundi í dag.
„Ég er ánægð með hvernig þetta lítur út,“ segir hún. Einnig munu breytingatillögur eftir aðra umræðu fjárlaga næsta árs vera langt komnar og verða að öllum líkindum kláraðar á fundi nefndarinnar næsta miðvikudag. Samkvæmt heimildum blaðsins liggur fyrir að í breytingatillögum fjáraukalaga verði meðal annars 370 milljónum varið aukalega til þjóðkirkjunnar á þessu ári.
Vigdís segir allar þær breytingatillögur sem samþykktar séu vera til að styrkja grunnstoðir samfélagsins.
Fjáraukalög úr nefnd í dag
