Fótbolti

Svona væri fullkominn leikur fyrir Zlatan í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Paris Saint-Germain, er þekktur fyrir yfirlýsingar um sjálfan sig og enn ein féll í aðdraganda leiks PSG í Meistaradeildinni í kvöld.

Paris Saint-Germain liðið heimsækir þá Malmö í fimmtu umferð Meistaradeildarinnar en Zlatan Ibrahimovic er þarna að koma aftur heim til að mæta sínu gamla liði.

Þetta er stór dagur fyrir Malmö-búa og allt er á öðrum endanum í borginni vegna þessa leiks. Þar elska allir Zlatan Ibrahimovic og jafnvel meira en sitt félag.

En hvernig væri fullkomið kvöld fyrir Zlatan Ibrahimovic? Það stóð ekki á svari hjá sænska framherjanum.

„Fullkomin atburðarás væri sú að við myndum vinna leikinn, ég myndi skora þrennu og allir á vellinum myndu síðan syngja nafnið mitt eftir leikinn," sagði Zlatan Ibrahimovic.

Hinn 34 ára gamli Zlatan Ibrahimovic var fæddur í Malmö og spilaði með liði borgarinnar frá 1999 til 2001.

Þetta verður í fyrsta sinn sem hann spilar með öðru félagsliði í borginni og það seldist strax upp á leikinn.

Zlatan Ibrahimovic  mun sjá til þess að Malmö-búar geti upplifað stemmninguna því Zlatan leigði aðaltorgið í Malmö, Stortorget, og þar verður leikurinn sýndur á risaskjá.

Íslendingurinn í liði Malmö, Kári Árnason, fær ekki að taka þátt í leiknum í kvöld þar sem hann tekur út leikbann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í umferðinni á undan.

Zlatan Ibrahimovic.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×