Vladimír Pútín Rússlandsforseti mun ekki funda með tyrkneskum starfsbróður sínum, Recep Tayyip Erdogan, í París en þeir eru nú báðir staddir í borginni í tengslum við loftslagsráðstefnuna sem hófst í morgun.
Talsmaður rússneskra stjórnvalda greinir frá þessu í samtali við AFP.
Erdogan hafði áður beðið um fund með Pútín eftir að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu á landamærum Sýrlands og Tyrkland, eftir að þotan var sögð hafa rofið tyrkneska lofthelgi.
Rúmlega 150 þjóðarleiðtogar eru nú komnir saman í París þar sem vonast er til að hægt verði að ná sögulegu samkomulagi um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2020.
Gífurleg öryggisgæsla er í borginni enda stutt síðan mannskæðar hryðjuverkaárásir voru gerðar þar. Kröfugöngur hafa verið haldnar um allan heim þar sem fólk krefst aðgerða en engin slík ganga fór þó fram í París þar sem það er bannað samkvæmt neyðarlögunum sem þar eru í gildi eftir árásirnar.
