Enski boltinn

Van Gaal nú með lélegri árangur en Moyes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal og David Moyes.
Louis van Gaal og David Moyes. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, horfði upp á sína menn detta út úr Meistaradeildinni í gærkvöldi og það er óhætt að segja að það hafi hitnað undir hollenska stjóranum í kjölfarið.

Manchester United þótti heppið með riðil í Meistaradeildinni en á endanum voru það lið Wolfsburg frá Þýskalandi og PSV Eindhoven frá Hollandi sem skildi United eftir með sárt ennið.

Louis van Gaal hefur ný stýrt liði Manchester United í 69 leikjum í öllum keppnum og þetta var fjórtánda tap liðsins undir hans stjórn. Hann hefur unnið 52,17 prósent leikja sem knattspyrnustjóri United.

Eftir tapið á móti Wolfsburg í gær er Louis van Gaal nú með lélegri árangur en forveri hans David Moyes. Þegar Moyes var rekinn frá Manchester United í apríl 2014 hafði liðið unnið 52,94 prósent leikja undir hans stjórn.  Það var Verdens Gang sem tók þetta saman.

Louis van Gaal hefur enn tapað einum leik færra en Moyes gerði en öll jafntefli liðsins undir stjórn Hollendingsins sjá til þess Moyes er með hætta sigurhlutfall.

Báðir unnu þeir helming leikja sinna í Meistaradeildinni en Van Gaal hefur náð hærra sigurhlutfalli í ensku úrvalsdeildinni en Moyes gerði á sínum tíma.

Manchester United hefur unnið 53 prósent deildarleikja sinna undir stjórn Van Gaal (28 af 53) en vann aðeins 50 prósent deildarleikja sinna í stjóratíð David Moyes (17 af 34).



Leikir Manchester United undir stjórn Louis van Gaal:

69 leikir

36 sigurleikir

19 jafntefli

14 töp

108 mörk skoruð (1,56 mörk í leik)

62 mörk fengin á sig (0,90 mörk í leik)

46 mörk í plús

52,17 prósent leikja hafa endað með sigri



Leikir Manchester United undir stjórn David Moyes:

51 leikur

27 sigurleikir

9 jafntefli

15 töp

86 mörk skoruð (1,69 mörk í leik)

54 mörk fengin á sig (1,06 mörk í leik)

32 mörk í plús

52,94 prósent leikja enduðu með sigri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×