Lífið

Mistök eru til að læra af

Sigga Dögg skrifar
visir/vilhelm
Ósk Gunnarsdóttir er ekki lítil mús sem læðist meðfram veggjum. Hún er orkumikil, jákvæð, hreinskilin, hjartahrein og brosmild, gott ef hún minnir ekki örlítið á litríkan einhyrning. Allir vegir eru henni færir og enginn trúir því meira en hún sjálf. „Ég er mikil draumóramanneskja og fæ þúsund hugmyndir á hverjum einasta degi, mig langar til að læra allt og vita og kunna. Ég er eins og svampur þegar kemur að upplifunum og reynslu. Allt er spennandi og allt kemur til greina,“ segir Ósk af einlægum ákafa. „Ég trúi því að mistök herði mann og séu til þess að læra af þeim. Því fleiri mistök, því breiðara bak. Þannig kýs ég að takast á við lífið. Þegar maður lendir í einhverju áfalli þá er bara að læra af því og halda áfram og taka það jákvæða úr reynslunni með sér.“

Breytingar í loftinu

Ósk starfar sem dagskrárgerðar­kona í morgunþættinum á FM957 með Sverri Bergmann. 

„Samstarfið með Sverri er yndis­legt, hann er bara ótrúlega góður maður og við erum eins og systkini, í honum hef ég eignast vin fyrir lífstíð og ég get treyst honum fyrir öllum mínum hjartans málum,“ segir Ósk um samstarfsfélaga sinn. „Ég er frekar góður mannþekkjari og er góð í að lesa fólk og því var lítið mál að smella beint saman við hann.“

 

Breytingar liggja í loftinu á samstarfi þeirra því bráðlega munu þau bæði snúa sér að öðrum verkefnum. „Já, morgunþátturinn eins og hann er í þessari mynd í dag er að líða undir lok og verður seinasti þátturinn okkar sendur út 18. desember, þá skiljast leiðir, allavega í bili,“ segir Ósk sposk. Það liggja mörg tilboð á borðinu og er það fyrsta verkefni Óskar á nýju ári að velja úr. „Ég fylgi innsæi mínu og trúi því að ákvörðunin sem ég tek sé sú rétta. Ég er þannig að ég næ alltaf að gera jákvætt úr hlutunum og er aldrei verkefnalaus svo ég kvíði þessu alls ekki heldur einmitt bara hlakka til að takast á við eitthvað nýtt,“ segir Ósk um þessar óvæntu breytingar.

Visir/vilhelm
Tapar ekki kúlinu

Ósk hefur víðtæka reynslu í að sjá um tónlistarhátíðir og viðburði, bæði hérlendis sem erlendis. „Ég hef alltaf haft gríðar­legan áhuga á tónlist og fór í Söngskóla Reykjavíkur, þó það sé kannski best að taka það fram að ég er ekki að trana mér fram sem söngkona, ég er meira svona í því að þjálfa upp aðrar söngkonur og vinna baksviðs, það heillar mig meira.“ 

Ósk hefur víðtæka reynslu af skipulagningu stórra viðburða og hefur séð um tónlistar­hátíðir líkt og Secret Solstice, ATP, Ice­land Airwaves og fjölda annarra stórra viðburða. Það var þó í Bretlandi þar sem reynslan var dýpkuð. „Ég var svo lánsöm að eiginlega detta í draumastarfið í London þar sem ég vann fyrir LD Communications, sem er risastórt viðburðafyrirtæki sem sér um flestar stærstu tónlistarhátíðirnar í Bretlandi og þar flaug ég í gegnum ráðningarferlið þó að ég væri ung og kannski á þeirra mælikvarða, frekar óreynd,“ segir Ósk, sem einnig leggur áherslu á að þar hafi íslenskur bakgrunnur verið styrkur. „Mennirnir sem réðu mig spurðu af hverju þeir ættu að ráða Íslending í starfið og ég sagði þeim að það væri einmitt kjörið því á Íslandi eru allir frægir og því kippum við okkur ekki upp við að hitta frægt fólk, við höldum bara kúlinu og sjáum um að hlutirnir gerist, ekkert röfl eða seinagangur,“ segir Ósk og slær á streng sem leynist í hverju einasta íslenska barnshjarta.

úr einkaeigu
Alltaf brjálað að gera

Ósk nam sálfræði og var stefnan alltaf sett á að verða barnasálfræðingur, en eins og Ósk bætir við: „Það er ekkert útilokað og það getur vel verið að ég læri meira seinna, það er meira að 

segja líklegra en ekki að ég geri það, framtíðin er óskrifað blað.“

Samhliða námi tókst hún á við ýmis verkefni innan Háskóla Íslands. Leiddi lista Vöku, var gríðar­lega virk í Stúdentaráði og sinnti umboðsmennsku fyrir tónlistarfólk líkt og Láru Rúnars og hljómsveitina Sykur. 

„Ég er nýbúin að fá athyglisbrestsgreiningu,“ segir Ósk og hlær. „Ég elska að vera í mörgum fjölbreyttum verkefnum og ég elska að vinna með fólki við krefjandi aðstæður og þessi ofvirkni er bara eitt af verkefnunum til að vinna með. Ég ætla að nýta mér hugleiðslu og reyna þannig að beisla huga og líkama,“ segir Ósk sem játar að einn hængur sé á athyglisbresti: að byrja á mörgu en klára fátt.

„Ég fæ svo margar hugmyndir og svo byrja ég á fullt af hlutum en kannski klára ég þá ekkert endilega en það má líka bara koma að þeim seinna,“ segir Ósk með smitandi jákvæðni. „Maður­inn minn, Snorri, er svo alveg eins svo það er oft líflegt þegar við förum að ræða framtíðina og við erum með alls konar verkefni á teikniborðinu, það er bara að sjá hvað verður að veruleika og hvenær,“ segir Ósk. „Mér hefur alltaf þótt svo flott það sem Baz ­­Luhrman ­leikstjóri sagði og það var að áhugaverðasta fólkið eru þeir einstaklingar sem eru um fertugt og hafa ekki hugmynd um hvað þeir ætla að verða þegar þeir verða stórir; maður hættir aldrei að læra,“ segir Ósk.

úr einkaeigu
Móðurhlutverkið

Benjamín Eldjárn heitir tveggja ára gamall sonur Óskar og sambýlismanns hennar, Snorra, sem er grafískur hönnuður hjá Branden­burg auglýsingastofu. Benjamín kom undir eftir stutt samband og þá þurfti að taka á honum stóra sínum. 

„Við vorum bara búin að vera saman í nokkra mánuði og ekki á stefnuskránni að eignast barn, allavega ekki strax, svo bara kemur hann undir, á miðju pilluspjaldi,“ segir Ósk glaðlega og bætir við að hún sé mjög þakklát fyrir hann. „Hann er í mínu fyrsta, öðru og þriðja sæti. Ég er hans og þá er vissara að standa sig,“ segir Ósk. 

„Þegar ég varð móðir þá breyttist lífssýn mín svolítið, ég fór að velta fyrir mér lífinu og tilgangi þess og þar verður hann alltaf settur í fyrsta sætið en samt þarf ég líka að rækta sambandið við makann og svo sjálfa mig,“ segir Ósk og tekur skýrt fram að lífið sé ekki alltaf dans á rósum. „Ég er oft kölluð Pollýanna og mér þykir það ekki leiðinlegur titill en það verður samt að segjast að þetta foreldrahlutverk er bara ótrúlega erfitt oft á tíðum og setur gífurlegt álag á sambandið. Ef við hefðum ekki frábært stuðningsnet þá værum við eflaust bara á hvolfi. Þetta tekst allt saman því mamma mín er okkar stoð og stytta, enda er hún mín besta vinkona,“ segir Ósk um náið og innilegt samband þeirra mæðgna. 

Það er mikilvægt að opna umræðuna um tabúmálefni, líkt og streituna sem fylgir uppeldi og ástarsamböndum og þar er hreinskilni Óskar frískandi. „Ég er hreinskilin og segi hlutina eins og er, ég fylgi hjartanu og dreg að mér fólk sem er eins,“ segir Ósk að lokum. Það er nokkuð ljóst að framtíðin er sjálflýsandi og birta fylgir Ósk og þeim sem hún umvefur alla daga






Fleiri fréttir

Sjá meira


×