Unnur Brá segir hælisleitendakerfið hafa verið búið til fyrir fólk í neyð. Þeir einstaklingar sem leiti að betra lífi og vilji vinna eigi að geta óskað eftir því að dvelja hér á öðrum grundvelli. „Ákvæði laganna okkar eru alltof þröng.“
Unnur Brá segir þverpólitíska þingmannanefnd skipaða af innanríkisráðherra hafa skilað af sér drögum að frumvarpi til nýrra laga um útlendingamál. Frumvarpið fjölgi þeim leiðum sem hægt er að fara til að sækja um leyfi til dvalar á Íslandi og mannúð verði í fyrirrúmi.
„Þetta eru mikilvægar breytingar. Við erum að laga löggjöfina. Neyðarkerfið á að vera fyrir þá sem eru í sárri neyð,“ segir Unnur Brá og bætir við að ekki gangi að hafa stofnanir uppteknar við að afgreiða umsóknir frá fólki sem augljóslega fái neitun. Hún segir fólk hafa aðrar leiðir til að koma til Íslands, en þær séu of strangar.
„Leiðirnar til að fá atvinnuleyfi eru til dæmis of þröngar. Það skýrist af ýmsu. Verkalýðshreyfingin hefur verið með mikla fyrirvara á að rýmka ákvæði fyrir fólk sem vill koma hingað til að vinna.“

„Það er alveg greinilegt að Útlendingastofnun hefur ekki hagsmuni flóttamanna að leiðarljósi. Hún hefur bara það lögbundna hlutverk að úrskurða í þessum málum,“ segir Ólína og bendir á að Útlendingastofnun greiði Rauða krossinum til að gæta hagsmuna flóttamanna og hælisleitenda.
„Og það er ekki nógu góður bragur á því. Það er ekki æskilegt að úrskurðaraðili hafi fjárhagssamband við góðgerðarsamtök. Ég efast þó ekki um þá starfsmenn sem gegna lögmannsstörfum fyrir Rauða krossinn en held það sé einfaldlega til bóta að standa betur að þessum málum. Ég held að ef við ætlum að gera þetta almennilega þá verðum við að hafa hér stofnun sem hefur það eina hlutverk að gæta hagsmuna hælisleitenda og flóttamanna. Það er núna verið að hugsa um móttökustöð, það væri hægt að taka þessa hugmynd með í það starf,“ segir Ólína.