Erlent

Forsætisráðherra Georgíu segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Irakli Garibashvili er náinn samstarfsmaður milljarðamæringsins Bidzina Ivanishvili, en flokkur þeirra vann mikinn sigur á fyrrverandi forsætisráðherranum Mikhail Saakashvili í kosningum 2012.
Irakli Garibashvili er náinn samstarfsmaður milljarðamæringsins Bidzina Ivanishvili, en flokkur þeirra vann mikinn sigur á fyrrverandi forsætisráðherranum Mikhail Saakashvili í kosningum 2012. Vísir/AFP
Irakli Garibashvili sagði af sér embætti sem forsætisráðherra Georgíu fyrr í dag. Hinn 33 ára Garibashvili tilgreindi ekki um ástæðurnar, en sagðist áfram ætla að starfa sem „trúr hermaður fyrir föðurlandið“.

Garibashvili tilkynnti um afsögnina í sjónvarpsávarpi, en hann tók við embætti forsætisráðherra í nóvember 2013.

Garibashvili er náinn samstarfsmaður milljarðamæringsins Bidzina Ivanishvili, en flokkur þeirra vann mikinn sigur á fyrrverandi forsætisráðherranum Mikhail Saakashvili í kosningum 2012.

Vangaveltur hafa verið uppi að undanförnu um að Garibashvili myndi segja af sér embætti til að einblína á flokksstarfið fyrir þingkosningar sem fram fara í landinu í nóvember að ári. Vinsældir flokksins hafa minnkað mikið og hafa kjósendur lýst yfir óánægju með að flokknum hefur ekki tekist að bæta lífskjör í landinu.

Fjölmiðlar hafa einnig velt vöngum yfir hvort Garibashvili stefni á að verða næsti borgarstjóri höfuðborgarinnar Tbilisi.

Giorgi Margvelashvili, forseti Georgíu, hefur nú sjö daga til að tilnefna nýjan forsætisráðherra sem þarf að njóta meirihlutastuðnings á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×