„Það er mikil hugsun á bakvið þetta hjá okkur. Pælingin er að nota formin aftur og setja þau saman á nýjan hátt,“ segir Jóhanna Metúsalemsdóttir, hönnuður hjá Kríu. Línan er öll steypt úr endurunnum málmi.
„Aftur er þekkt fyrir það að endurvinna fatnað og ég er farin að vinna eingöngu með endurunninn málm. Við Bára Hólmgeirsdóttir hjá Aftur erum góðar vinkonur og okkur hefur lengi langað að hanna eitthvað saman,“ segir hún.
Jóhanna segist eingöngu vinna með endurunninn málm núna. „Það er sífellt vinsælla í tískubransanum að nota hann og mjög margir skartgripasteyparar í New York, þar sem ég bý, eru farnir að nota slíkan málm.“
Hálsmenið verður framleitt í takmörkuðu upplagi og kemur í verslun Aftur á morgun klukkan 17, ásamt nýrri línu frá Kríu, Incarnation. Menið verður svo til sölu í Aftur yfir HönnunarMars.
