Gunnar Tryggvi Halldórsson, framkvæmdastjóri SAH afurða, segir samninginn skipta miklu máli fyrir innlenda framleiðslu. „Allt í allt er þetta 21 gámur af lambakjöti og gærum. Samkomulagið snýr að sölu á 160 tonnum af lambakjöti og 70.000 gærum. Þessi samningur er mjög mikilvægur bæði fyrir SAH afurðir sem og aðra á innlendum markaði,“ segir Gunnar Tryggvi.
SAH afurðir eru í meirihlutaeigu Sölufélags Austur-Húnvetninga og Kjarnafæðis. Að mati Gunnars Tryggva er verðið sem félagið fær fyrir afurðirnar gott og í samræmi við verð á innanlandsmarkaði. Virði samningsins, sem undirritaður var í Asíu í síðustu viku, er allt að fjögur hundruð milljónir króna.

„Það er alveg ljóst að þetta er hagstæðasti samningur sem við höfum náð hjá SAH afurðum um útflutning á kjöti. Þarna erum við að selja kjöt út á sama verði og á innanlandsmarkað sem er nýlunda hvað útflutning á lambakjöti snertir.“
Verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun gæti sett strik í reikninginn. Allur útflutningur á kjötafurðum verður að fara í gegnum stofnunina og dýralæknar þurfa að votta afurðir sem fara úr landi. Sú stétt hefur nú verið í verkfalli í yfir mánuð og skiptir miklu fyrir aðila á markaðnum að kjaradeilan leysist sem fyrst.
„Við þurfum að geta sent út gærurnar sem fyrst og vonumst eftir því að geta sent allt út í þessum mánuði. Það sem gæti stöðvað það er verkfall dýralækna því það þarf hleðslustaðfestingu og vottorð frá dýralæknum Matvælastofnunar til þess að við getum flutt afurðirnar út. Það er mjög mikilvægt fyrir þjóðarbúið að tryggja útflutning á afurðum sem þessum og hagur allra.“