Næstu aðgerðir eru nú boðaðar 28. og 29. maí og svo ótímabundið frá 6. júní verði ekki samið fyrir þann tíma.
„Við erum bara að gefa Samtökum atvinnulífsins tækifæri til að koma með eitthvað almennilegt tilboð til þess að það verði hægt að klára þessa samninga. Þetta þýðir ekki að við séum að slá af. Við veitum frest og skorum á SA að nýta hann. Þetta er gert til að veita umþóttunartíma.“
Spurður hvort Starfsgreinasambandið sé með þessu einnig að reyna að verða samferða VR, Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Flóabandalaginu í aðgerðum segir Björn: „Það yrði auðvitað meiri þungi þegar kannski 80 þúsund manns fara í verkfall á sama tíma en það var ekki endilega pælt í því þegar við vorum að taka þessa ákvörðun.“

Fundur BHM og samninganefndar ríkisins í gær breytti litlu, að sögn Páls Halldórssonar, formanns samninganefndar Bandalags háskólamanna, BHM. „Við komumst voða lítið á þeim fundi. Við erum enn að ræða saman en alls ekkert að klára eitt eða neitt.“
Páll nefnir að bæði sé verið að fást við upphæðir og kerfi. „Kerfið getur aldrei tekið mið af samningum annarra. Þeir geta ekki verið að bíða eftir samningum við aðra. Við leggjum ríka áherslu á að ná fram samningi sem hentar okkur og við viljum koma þeim viðræðum almennilega í gang.“

VR og Flóabandalagið luku átta klukkustunda fundi samninganefnda félaganna í gær. „Við vorum að ræða saman um hvort það væri hægt að vinna með eitthvað í tilboðum SA,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
„Við erum enn að tala saman og munum halda áfram fundarlotunni á sunnudaginn.“ Aðspurð segir Ólafía að frestun á verkfalli Starfsgreinasambandsins hafi ekki verið til að stilla saman strengi með verkfallsaðgerðum annarra verkalýðsfélaga.
„Ég frétti bara af þessu í fjölmiðlum í morgun,“ segir hún.