Feilnóta Illuga Magnús Guðmundsson skrifar 8. júní 2015 07:00 Blessuð tónlistin. Hún er þarna frá morgni til kvölds og frá vöggu til grafar. Hún huggar og gleður, lyftir andanum og litar hversdaginn. Hvort sem dansað er á harmonikkuballi eftir réttir, rappað, stappað eða klappað í Hörpu – æ, það skiptir ekki máli. Mikið væri lífið fátæklegt án tónlistar. Tónlistin er sem sagt órjúfanlegur hluti af lífi okkar flestra og hún býr yfir einhverjum undarlegum töfrakrafti. Það er því ekki að undra að ungt fólk vilji leggja fyrir sig tónlistarnám. Aðdráttaraflið er mikið. Auðvitað fer aldrei svo að allt þetta unga fólk geri tónlistina að ævistarfi. Langt í frá. Ekki frekar en allir þeir frábæru krakkar sem spila fótbolta um allt land sér til ánægju og yndisauka koma til með að fara í atvinnumennsku í íþróttum. En rétt eins og fótboltinn eða önnur íþróttaiðkun þá er tónlistin ómetanlegur valkostur í tómstunda- og menntalífi allra landsmanna. Þegar komið er á framhaldsskólastigið standa eftir mörg þeirra sem ætla sér lengra eða vilja að minnsta kosti að tónlistariðkun verði áfram ríkulegur þáttur í lífi sínu. Það merkilega er að tölfræðin sýnir okkur að þessir krakkar standa sig oft sérstaklega vel í öllu námi. Þau eru einbeitt, skipulögð og nýta tíma sinn vel og allt þetta óháð búsetu og efnahagslegum aðstæðum heima fyrir. Það hlýtur að segja okkur að gott aðgengi að tónlistarnámi, sem og öðru afreksstarfi, sé fádæma hagstæð leið fyrir samfélagið til eflingar komandi kynslóða. Gott aðgengi að góðu tónlistarnámi er þannig frábær fjárfesting fyrir samfélagið. Eru stjórnmálamenn ekki alltaf að leita að hagstæðum framtíðarfjárfestingum samfélaginu til heilla? Eða var það skjótfenginn ávinningur fyrir kjörtímabilið? Að minnsta kosti gefst Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra nú einstaklega gott tækifæri til þess að miðla því til kjósenda hvorn kostinn hann telji betri. Hann er maðurinn á bak við þá hugmynd að allt ríkisfjármagn sem fer í framhaldsnám í tónlist á landsvísu fari nú í einn sameinaðan tónlistarskóla í Reykjavík. En sveitarfélögin, hvar og hvernig sem þau eru í sveit sett, eigi að sjá um sína. Ef rétt reynist þá mun þetta óhjákvæmilega draga úr aðgengi að tónlistarnámi og skerða jafnrétti til náms eftir búsetu svo eitthvað sé nefnt. Óháð því hvað þetta leggur á sveitarfélögin sem eru misvel í stakk búin til þess að takast á við málið. Og óháð því hversu mikið þetta getur skaðað það góða starf sem fjölmargir tónlistarskólar víða um land hafa að bjóða. Þá er þetta fyrst og fremst eitthvað sem ungt fólk í tónlistarnámi getur ekki látið bjóða sér í nútímasamfélagi. Samfélagi þar sem ungt fólk lætur sig jafnvel dreyma um annað og meira en áburðarverksmiðjur og álver. En þetta veit Illugi eflaust enda liðtækur við píanóið og vonandi er honum því treystandi til þess að slá ekki slíka feilnótu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Börn, ungmenni og geðheilsa Tómas Þór Þórðarson,Gunnar Örn Jóhannsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Bætum umhverfið svo öll börn geti blómstrað Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage Skoðun Úreltar og óréttmætar hvalveiðar Henry Alexander Henrysson Skoðun Áhyggjulaust ævikvöld Gísli Rafn Ólafsson Skoðun
Blessuð tónlistin. Hún er þarna frá morgni til kvölds og frá vöggu til grafar. Hún huggar og gleður, lyftir andanum og litar hversdaginn. Hvort sem dansað er á harmonikkuballi eftir réttir, rappað, stappað eða klappað í Hörpu – æ, það skiptir ekki máli. Mikið væri lífið fátæklegt án tónlistar. Tónlistin er sem sagt órjúfanlegur hluti af lífi okkar flestra og hún býr yfir einhverjum undarlegum töfrakrafti. Það er því ekki að undra að ungt fólk vilji leggja fyrir sig tónlistarnám. Aðdráttaraflið er mikið. Auðvitað fer aldrei svo að allt þetta unga fólk geri tónlistina að ævistarfi. Langt í frá. Ekki frekar en allir þeir frábæru krakkar sem spila fótbolta um allt land sér til ánægju og yndisauka koma til með að fara í atvinnumennsku í íþróttum. En rétt eins og fótboltinn eða önnur íþróttaiðkun þá er tónlistin ómetanlegur valkostur í tómstunda- og menntalífi allra landsmanna. Þegar komið er á framhaldsskólastigið standa eftir mörg þeirra sem ætla sér lengra eða vilja að minnsta kosti að tónlistariðkun verði áfram ríkulegur þáttur í lífi sínu. Það merkilega er að tölfræðin sýnir okkur að þessir krakkar standa sig oft sérstaklega vel í öllu námi. Þau eru einbeitt, skipulögð og nýta tíma sinn vel og allt þetta óháð búsetu og efnahagslegum aðstæðum heima fyrir. Það hlýtur að segja okkur að gott aðgengi að tónlistarnámi, sem og öðru afreksstarfi, sé fádæma hagstæð leið fyrir samfélagið til eflingar komandi kynslóða. Gott aðgengi að góðu tónlistarnámi er þannig frábær fjárfesting fyrir samfélagið. Eru stjórnmálamenn ekki alltaf að leita að hagstæðum framtíðarfjárfestingum samfélaginu til heilla? Eða var það skjótfenginn ávinningur fyrir kjörtímabilið? Að minnsta kosti gefst Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra nú einstaklega gott tækifæri til þess að miðla því til kjósenda hvorn kostinn hann telji betri. Hann er maðurinn á bak við þá hugmynd að allt ríkisfjármagn sem fer í framhaldsnám í tónlist á landsvísu fari nú í einn sameinaðan tónlistarskóla í Reykjavík. En sveitarfélögin, hvar og hvernig sem þau eru í sveit sett, eigi að sjá um sína. Ef rétt reynist þá mun þetta óhjákvæmilega draga úr aðgengi að tónlistarnámi og skerða jafnrétti til náms eftir búsetu svo eitthvað sé nefnt. Óháð því hvað þetta leggur á sveitarfélögin sem eru misvel í stakk búin til þess að takast á við málið. Og óháð því hversu mikið þetta getur skaðað það góða starf sem fjölmargir tónlistarskólar víða um land hafa að bjóða. Þá er þetta fyrst og fremst eitthvað sem ungt fólk í tónlistarnámi getur ekki látið bjóða sér í nútímasamfélagi. Samfélagi þar sem ungt fólk lætur sig jafnvel dreyma um annað og meira en áburðarverksmiðjur og álver. En þetta veit Illugi eflaust enda liðtækur við píanóið og vonandi er honum því treystandi til þess að slá ekki slíka feilnótu.
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun