Afleiðingarnar geti orðið alvarlegar fyrir heilbrigðisstéttir og heilbrigðiskerfið í heild.
Ólafur áréttar að sömu rök eigi við um þessar stéttir og viðhöfð hafi verið í verkfalli lækna, hvað varðar mikilvægi starfanna fyrir heilbrigðiskerfið og möguleika á störfum í útlöndum.

Sama eigi svo við um geislafræðinga og aðra sérfræðinga í heilbrigðiskerfinu.
„Það vantar milljón heilbrigðisstarfsmenn í Evrópu fyrir 2020, en þar eru undir læknar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, lífeindafræðingar, ljósmæður og allt saman.“
Vinna sé auðfundin utan landsteinanna. Hann viti til dæmis um eina sem strax hafi fengið vinnu í Svíþjóð eftir eitt símtal á sjúkrahús þar í vikunni.
„En við erum ansi hrædd um það að farið verði að setja lög,“ segir hann. Skilaboðin hafi verið að fyrst ekki náðust samningar á samningafundum vikunnar þá mætti vænta lagasetningar sem fyrst.
Síðan eigi eftir að koma í ljós hvað slík lagasetning feli í sér, hvort gefinn verði frestur til að ná samningum, eða hvort kjaradeilum verði vísað beint í gerðardóm.
„Það eru til nokkrar útfærslur á þessu og það sér maður náttúrlega ekki fyrr en frumvarp er komið fram.“

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, áréttar að þau séu tilbúin að setjast að samningaborðinu hvenær sem er.
„En þá verða menn náttúrlega að vera tilbúnir að ræða það sem okkur liggur á hjarta, að menntun sé metin til launa og fjármagn aukið til stofnanasamninga,“ segir hann.
Ríkissáttasemjari sleit samningafundi BHM og ríkisins seint á miðvikudagskvöld eftir að samninganefnd ríkisins hafnaði tillögu BHM til lausnar á deilunni.
Páll segir að viðræður hafi ekki verið miklar, en samninganefndin hafi borið tillögu ríkisins undir bakland félaganna, en það hafi ekki verið tilboð sem neinu hafi breytt í grundvallaratriðum.
„Núna eru hótanir í lofti um lög, en ég ætla bara að vona að til þess komi ekki og takist að semja,“ segir Páll.
Rætt var við Ólaf og Pál á Austurvelli í gær í mótmælastöðu BHM og hjúkrunarfræðinga, áður en ljóst var hvort ríkisstjórnin ætlaði sér að setja lög á verkföll félaganna.