Erlent

35 smyglarar handteknir í lögregluaðgerðum í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Straumur flóttafólks til álfunnar hefur stóraukist síðustu mánuði.
Straumur flóttafólks til álfunnar hefur stóraukist síðustu mánuði. Vísir/AFP
35 manns hafa verið handteknir í umfangsmiklum og samhæfðum aðgerðum lögreglu í Tyrklandi og Þýskalandi sem beindist gegn skipulögðu smygli á fólki frá Tyrklandi til Evrópu. Talið er að glæpahringurinn hafi smyglað um 1.700 manns til Evrópu í vanbúnum bátum frá Tyrklandi.

Lögreglustjórar í Tyrklandi og Þýskalandi segja að handtökurnar séu mikið högg fyrir þá skipulögðu glæpastarfsemi sem meðal annars hefur stuðlað að stórauknum straumi flóttafólks til álfunnar.

Um fimm hundruð þýskir lögreglumenn gerðu húsleit á sautján stöðum í samtals sex löndum Þýskalands. Ríkislögreglustjórinn Dieter Romann segir fimm hafa verið handtekna í aðgerðunum. Þrjátíu manns voru handteknir í sambærilegum aðgerðum í Tyrklandi.

Smyglararnir eiga að hafa keypt þrjú illa farin flutningsskip í Tyrklandi, hleypt fleiri hundruð flóttamanna um borð, sett skipin á sjálfstýringu og beint í átt að strönd Ítalíu.

Áætlað er að farþegarnir hafi greitt allt að 750 þúsund krónur fyrir plássið um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×