KR vann 2-1 sigur á 1. deildarliði HK í Lengjubikar karla í fótbolta í Kórnum í kvöld en þetta var fyrsti sigur Vesturbæjarliðsins í Lengjubikarnum í ár.
KR-ingar eru nýkomnir heim úr æfingaferð til Bandaríkjanna en þeir gerðu 1-1 jafntefli við 1. deildarlið Hauka áður en þeir fóru út.
Bæði mörk KR-liðsins komu í fyrri hálfleiknum, það fyrra var sjálfsmark á 6. mínútu en það síðara skoraði Hólmbert Aron Friðjónsson á 38. mínútu.
HK náði að minnka muninn með marki á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Það var hinn sextán ára gamli Eiður Gauti Sæbjörnsson sem skoraði markið.
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði einnig mark KR-liðsins í jafnteflinu við Hauka og hefur því skorað í tveimur fyrstu Lengjubikarleikjum KR í ár.
Nýju mennirnir, Michael Præst Möller, Finnur Orri Margeirsson, Indriði Sigurðsson og Kennie Knak Chopart voru allir í byrjunarliði KR í þessum leik.
Meðal byrjunarliðsmanna hjá HK voru Jóhannes Karl Guðjónsson, Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Jökull I Elísabetarson, fyrrum KR-ingur.
Sveinn Aron Guðjohnsen var einn af þremur átján ára strákum í byrjunarliði HK en hinir voru Birkir Valur Jónsson og Ísak Óli Helgason. Hinn sextán ára Eiður Gauti Sæbjörnsson kom síðan inná sem varamaður í leiknum. Alls voru fimm 2. flokks strákar sem spiluðu fyrir HK í kvöld því hinn 17 ára Kristleifur Þórðarson kom líka inná sem varamaður.
Upplýsingar um markaskora eru fengnar frá úrslitaþjónustuvefnum öfluga úrslit.net.
