Enski boltinn

Ætla stóru liðin í Englandi að ganga úr Meistaradeildinni?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Manchester United og Arsenal.
Úr leik Manchester United og Arsenal. Vísir/Getty
Samkvæmt forsíðu íþróttablaðs The Sun funduðu forráðamenn fimm stærstu félaganna í Englandi í gær um þann möguleika að hætta að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.

Forráðamenn Manchester United, Liverpool, Chelsea, Manchester City og Arsenal munu hafa rætt saman um þann möguleika að ganga þess í stað inn í nýja evrópska ofurdeild.

Það mun hafa verið bandaríski auðkýfingurinn Stephen Ross sem stóð fyrir fundinum en hann hefur staðið fyrir mótunum International Champions Cup sem mörg stærstu liða Evrópu taka þátt í á undirbúningstímabilum sínum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem umræða af þessu tagi kemst upp og fulltrúar félaganna neitað því að hafa í hyggju að breyta því mótafyrirkomulagi sem hefur verið við lýði undanfarin ár.

„Hvorki Arsenal né önnur félög sem voru á fundinum vilja breyta keppnisfyrirkomulagi ensku úrvalsdeildarinnar eða landslagi Evrópukeppnnanna. Engar viðræður um stofnun nýrrar evrópskrar ofurdeildar áttu sér stað,“ sagði talsmaður Arsenal.

Lengi hefur verið orðrómur á kreiki um að stærstu félag Evrópu vilji ganga úr núverandi deildarkeppnum og stofna nýja ofurdeild. Ýmsar tillögur þess efnis hafa verið lagðar fram í gegnum tíðina en aldrei komist á flug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×