Mikið var fjallað um endurkomu bandarísku skíðakonunnar Lindsey Vonn um síðustu helgi en hún keppti þá daginn eftir að hún datt illa og var flutt úr brekkunni á börum.
Helsti andstæðingur Lindsey Vonn er hin svissneska Lara Gut og Gut var spurð út í sálfræðistríðið sem væri í gangi á milli þeirra Vonn nú þegar þær berjast einu sinni sem ofar um Heimsbikarinn á skíðum.
Lindsey Vonn meiddist á hné á laugardaginn og var flutt í burtu á sjúkrasleða en við myndatöku kom í ljós að engin liðbönd höfðu skaðast. Von hafði brákað bein í hnénu og nú var þetta spurning um hvort hún gæti harkað af sér.
Lindsey Vonn gerði það og lét líka alla vita af því á Instagram-reikningi sínum að hún hafði látið tappa af hnénu fyrir keppnina.
„Ég er baráttukona. Þið getið treyst á mig. Ég er orðin gömul en ég er ekki búinn að vera," sagði Lindsey Vonn í sjónvarpsviðtali við þýsku sjónvarpstöðina ZDF eftir keppnina.
Lara Gut gaf ekki mikið fyrir alla dramatíkina. „Það er alltaf eitthvað leikrit í gangi hjá Vonn. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og þetta verður ekki það síðasta. Ég vil bara einbeita mér að því að skíða," sagði Lara Gut.
Lindsey Vonn hefur 28 stiga forskot á Gut þegar aðeins tvær vikur eru eftir af keppnistímabilinu. Eftir átta keppnir kemur í ljós hvort Vonn vinnur sinn fimmta heimsbikar í samanlögðu eða hvort Gut vinnur sinn fyrsta.
