Áfram er vont veður víða um land, þó farið sé að draga úr vindi suðvestanlands. Veðurhæð nær hámarki um norðvestanlandið í eftirmiðdaginn og ganga mun á með þéttum hryðjum um allt vestanvert landið.
Mjög hvasst er víða á Vestfjörðum og er búið að loka vegum um Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán og eins á Klettshálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Einnig er hvasst á Norðurlandi og varar umferðaþjónusta Vegagerðarinnar sérstaklega við hviðum á Siglufjarðarvegi.
Þá er áfram óveður á Snæfellsnesi og vegirnir um Fróðárheiði, Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Laxárdalsheiði enn lokaðir. Vegir á Austurlandi eru sagðir mikið til auðir en hálkublettir sumstaðar.
Á morgun er spáð talsverðri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu samhliða hlýnandi veðri og von er á fyrstu asahláku ársins um land allt. Mun hún ágerast þegar líður á kvöldið.
Veðurstofa segir viðbúið að aukið álag verði á afrennsliskerfi bæja og bendir á að gott er að hreinsa vel frá niðurföllum og útidyrum kjallara.
Samfara hlákunni má búast við því að blautur og þungur snjór finni sér farveg og því skapast aukin hætta á aur- og krapaflóðum víðsvegar í fjalllendi. Vegfarendur eru beðnir um að sýna sérstaka aðgát við og umhverfi ár, sem og á ferðum sínum um fjalllendi.
Fleiri vegum lokað: Veðrið nær brátt hámarki norðvestanlands

Tengdar fréttir

Mjög slæmt veður í dag og á morgun
Veðurstofa biður vegfarendur að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega þessa helgi.

Heiðum á Vesturlandi lokað
Vegunum um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði hefur verið lokað vegna óveðurs.