Erlent

Tala látinna hækkar eftir sjálfsmorðsprengjuárásina í Pakistan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fórnarlömbin eru að mestu konur og börn.
Fórnarlömbin eru að mestu konur og börn. Vísir/AFP
Minnst 69 eru látnir og 280 særðir eftir sjálfsmorðsprengjuárás í garði í borginni Lahore í Pakistan. Pakistanskir talibanar hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni og segja að henni hafi verið beint að kristnu fólki.

Fjölmennt var í garðinum vegna páskahátíðarinnar. Árásin var gerð á bílastæði við garðinn í þann mund sem margir voru á leið heim. Bílastæðið er rétt við leiksvæði barna en fórnarlömb árásinnar eru að mestu konur og börn.

Pakistanskir talibanar í hópi sem nefnist Jaamat-ul-Ahrar lýstu yfir ábyrgð á árásunum. Talsmaður samtakanna sagði að árásin væri skilaboð til Nawaz Sharif forsætisráðherra Pakistan um að samtökin væru komin til að vera í Lahore, einni fjölmennustu borg Pakistan.

Þriggja daga sorg hefur verið lýst yfir í Punjab-héraði. Talsmaður héraðsstjórnarinnar segir að gæslulið hafi verið á staðnum þegar árásin var gerð en ekki hafi borist nein viðvörun um að árás væri í vændum.

Margir hinna slösuðu eru taldir vera alvarlega særðir og óttast er að tala látina muni hækka enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×