Veiði

Vann kappræður um seiðasleppingar og ræktun laxveiðiáa

Karl Lúðvíksson skrifar
Þröstur Elliðason í kunnuglegum stellingum
Þröstur Elliðason í kunnuglegum stellingum Mynd: www.strengir.is
Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengjum er einn af frumkvöðlum í ræktunarstarfi laxveiðiáa og hefur náð góðum árangri t.d. í Breiðdalsá og Ytri Rangá á sínum tíma.

Á haustdögum tók Þröstur þátt í kappræðum í London á vegum „Flyfishers Club“ sem er einn þekktasti og virðulegasti veiðiklúbbur Bretlandseyja. Þröstur er reyndar meðlimur í honum og var því beðin um að taka þátt í kappræðum varðandi seiðasleppingar og ræktun laxveiðiáa. Voru það fyrstu kappræður í Flyfishersclub síðan 1938.  Þær fóru fram í glæsilegum sal „Savile Club“ á Brook Street þar sem húsakynni Flyfishersclub eru líka þar á efri hæðum. Mótaðili Þrastar var fiskifræðingur og þekktur veiðimaður á Bretlandseyjum, Dr. Malcolm Greenhalgh.

Fjölmargir áhorfendur og áhrifamenn úr heimi stangveiða þar ytra mættu og greiddu þær atkvæði fyrir og eftir kappræður og var meirihlutinn á móti seiðasleppingum til að byrja með en til að segja langa sögu stutta þá sveiflaðist fylgið yfir til Þrastar og vann hann með yfirburðum er talning fór fram að lokum. Við óskum Þresti til hamingju með þetta þótt seint sé.






×