Óðinn Þór Ríkharðsson er genginn í raðir FH frá Fram, en Óðinn er unglingalandsliðsmaður og var meðal annars í bronsliði Íslands á EM í fyrra.
Óðinn hefur undanfarin ár leikið með Fram, en þar áður lék hann með HK. Hornamaðurinn skoraði 88 mörk í 27 leikjum í Olís-deildinni í vetur samkvæmt heimasíðu HSÍ.
Hann er fjórði leikmaðurinn sem yfirgefur Fram á nýafstöðnu tímabili, en þeir Stefán Darri Þórsson og Garðar B. Sigurjónsson fóru í Stjörnuna og Ólafur Ægir Ólafsson í Val.
„Þetta er feykilega ánægjulegt og við FH-ingar erum gríðarlega stoltir að Óðinn Þór hafi valið FH," sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, á heimasíðu félagsins.
„Drengurinn hafði úr ýmsu að velja en ákvað að koma í FH. Þjálfarateymið og leikmannahópurinn sem fyrir er, aðstaðan í Kaplakrika og sú framtíðarsýn sem við FH-ingar höfum heillar. Markmið okkar er skýrt, við ætlum að keppa um titla á næsta ári."
FH lenti í sjötta sæti Olís-deildar karla, en liðinu gekk afar illa fyrir áramót. Þeir duttu svo út gegn Aftureldingu í átta liða úrslitunum, 2-0.
