Erlent

Deilur vegna Ramadan leiddu til íkveikju í flóttamannaskýli

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að deilur meðal flóttafólks hafi leitt til íkveikju í stórum sal sem notaður var til að hýsa 282 flóttamenn í Þýskalandi. Salurinn gjörskemmdist í eldinum, en átta menn hafa verið handteknir vegna málsins. Þar af eru tveir 26 ára gamlir menn frá Marokkó sem grunaðir eru um íkveikju. Annar þeirra er sagður hafa hellt eldfimum vökva á dýnu og kveikt í henni.

Flóttamannaskýlið er skammt frá borginni Dusseldorf í Þýskalandi. Þar voru til húsa 282 karlkyns flóttamenn. Samkvæmt AFP fréttaveitunni voru flestir frá Sýrlandi, Írak, Afganistan og Norður-Afríku. Rúmlega 70 slökkviliðsmenn þurfti til að ná tökum á eldinum.

Svo virðist sem að deilur tveggja hópa um matmálstíma hafi leitt til íkveikjunnar. Annar hópurinn vildi fasta vegna Ramadan mánaðarins en hinn hópurinn vildi fylgja hefðbundnum matmálstímum. Saksóknari að deilurnar hafi leitt til nokkurra átaka á milli hópanna og deilna við starfsmenn Rauða krossins, sem rak skýlið.

Mennirnir sem hafa verið handteknir eru sagðir hafa hótað því að kveikja í húsinu ef ekki yrði breyting á og saksóknari segir að svo virðist sem að hótuninni hafi verið fylgt eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×