Vísir greindi frá því í gær að Árni Stefán hafi sótt um inngöngu í hóp skotveiðimanna sem spá og spjalla í lokuðum hópi á Facebook. Ýmsum til furðu, þá vegna umdeildra ummæla lögmannsins sem setur hag dýranna í öndvegi þá á kostnað mannskepnunnar, var Árni Stefán samþykktur sem meðlimur í hópnum.
Menn hafa rætt um þennan mink í hænsnakofanum sem Árni Stefán hefur verið sagður á þessum vettvangi, en eins og staðan er nú virðist þetta fremur vera sem svo að hænan hafi drepið á dyr refabúsins. Í það minnsta hefur Árni Stefán nú tekið skjáskot af nokkrum ummælum sem hafa fallið þarna inni á þessum lokaða vettvangi, um sig, og birt á sinni Facebooksíðu.

Nokkuð hefur verið tekist á um veru Árna Stefáns í Skotveiðispjallinu og meðan einn spyr hvort þetta eigi að vera eins og á Pírataspjallinu, þar sem öllum þeim sem ekki fylgja sakramentinu segir annar að þetta geti vart verið vettvangur fyrir and-veiðimenn. „Út með manninn þetta er hættulegur geðsjúklingur,“ segir svo annar og víst er að Árni Stefán er enginn aufúsugestur í hópnum.