Fótbolti

Æfing landsliðsins í Annecy blásin af

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tómlegur æfingavöllur landsliðsins í Annecy í dag.
Tómlegur æfingavöllur landsliðsins í Annecy í dag. Vísir/Vilhelm
Ekkert varð af því að strákarnir okkar í karlalandsliðinu æfðu í Annecy í dag eins og til stóð. Æfingin var aðeins hugsuð fyrir þá leikmenn sem byrjuðu ekki leikinn gegn Ungverjum í gær.

Svo fór hins vegar að aðeins fimm leikmenn í liðinu höfðu hug á því að komast í hreyfingu í dag og ákváðu þjálfararnir Heimir og Lars að lítill tilgangur væri að setja upp sérstaka æfingu fyrir aðeins fimm manns. Heimir, Lars og Eiður Smári ræddu þó við fjölmiðlamenn á æfingasvæðinu eins og til stóð.

Okkar menn hvíla því allir sem einn en ljóst er að margir þeirra sem spiluðu í gær eru þreyttir eftir átökin. Sem dæmi hefur Gylfi Þór Sigurðsson hlaupið yfir ellefu kílómetra í báðum leikjum og þá fór  Aron Einar Gunnarsson meiddur af velli um miðjan síðari hálfleik.

Sömu sögu er að segja um Jón Daða Böðvarsson sem var skipt af velli vegna höggs sem hann fékk. Þá veltu þjálfararnir einnig fyrir sér að skipta Jóhanni Berg Guðmundssyni af velli sem sömuleiðis fékk að kenna á því í baráttunni í Marseille í dag.

Menn verða því í endurheimt hjá sjúkrateyminu í dag en æfa svo allir sem einn, verði allir heilir, á morgun hér í Annecy.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×