Úrslitin réðust í A-riðli á EM 2016 í Frakklandi í kvöld.
Í Lille gerðu Frakkar og Svisslendingar markalaust jafntefli og í Lyon vann Albanía sögulegan sigur á Rúmeníu.
Frakkland vann A-riðilinn með sjö stig en Sviss endaði í 2. sæti með fimm stig. Þetta er í fyrsta sinn sem Svisslendingar komast áfram í útsláttarkeppni á EM.
Frakkar voru talsvert sterkari aðilinn í leiknum í kvöld og mun líklegri til að skora.
Paul Pogba var reyndar nálægt því að skora sjálfsmark á 8. mínútu en eftir það tók franska liðið völdin.
Pogba var mjög hættulegur á kafla í fyrri hálfleik en Yann Sommer, markvörður Svisslendingar, varði tvisvar frá Juventus-manninum auk þess sem hann þrumaði í slánna.
Staðan var markalaus í hálfleik og fátt markvert gerðist í seinni hálfleiknum. Varamaðurinn Dimitri Payet komst næst því að skora þegar skot hans hafnaði í slánni á 75. mínútu. Antoine Griezmann fékk einnig ágætis færi til að skora en Sommer varði frá honum.
Hvorugu liðinu tókst að skora og því lyktaði leiknum með markalausu jafntefli.
