Golf

Lýkur eyðimerkurgöngu Mickelson?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Phil Mickelson.
Phil Mickelson. vísir/getty
Bandaríski kylfingurinn Phil Mickelson fagnaði 46 ára afmæli sínu í gær og hann vonast til að eiga góða afmælishelgi. Sú helgi á að enda með því að hann verði loksins meistari á US Open sem hófst í gær.

Ef Mickelson tekst að vinna mótið þá kemst hann í fámennan hóp manna sem hafa unnið öll fjögur risamótin í golfinu. Þeir sem það hafa gert eru Tiger Woods, Jack Nicklaus, Gene Sarazen, Ben Hogan og Gary Player.

Dreymir um að vinna þetta mót

Það er óhætt að segja að Mickelson hafi verið grátlega nálægt því að ná alslemmu golfsins. Hann er sannkallaður silfurmaður US Open enda hefur hann orðið í öðru sæti mótsins sex sinnum. Það var árin 1999, 2002, 2004, 2006, 2009 og 2013. Ótrúlegt hreinlega.

„Þetta er eðlilega það mót sem mig dreymir um að vinna. Ég vil ná alslemmunni og hugsa stanslaust um að vinna þetta mót. Ég verð samt að koma því úr hausnum á mér. Vera þolinmóður, spila minn leik og ekki þvinga eitthvað fram,“ segir Mickelson.

Hann hefur unnið fimm risamót á ferlinum og síðasta risamót sem hann vann var Opna breska meistaramótið árið 2013.

„Ég er jákvæður og lít á þetta sem frábært tækifæri til að loka hringnum fyrir mig. Það væri sögulegt ef mér tækist að vinna öll risamótin. Öll mín reynsla á að nýtast mér á þessu móti og það vantar ekkert upp á hungrið,“ segir Mickelson en hann spilaði með Englendingnum Justin Rose og Svíanum Henrik Stenson í gær.

Erfiðasti völlur heims?

Völlurinn sem leikið er á er ákaflega krefjandi. Oakmont-völlurinn er einn erfiðasti golfvöllur heims og hefur farið illa með margan kylfinginn í gegnum tíðina.

US Open fór síðast fram á þessum golfvelli árið 2007 en alls hefur mótið farið fram þarna átta sinnum. Það er met. Sigurvegari mótsins 2007 var Argentínumaðurinn Angel Cabrera. Hann endaði mótið á fimm höggum yfir pari sem segir meira en mörg orð um hversu erfiður þessi völlur er.

„Þessi völlur er einstakur. Það er ekki hægt að fá einn auðveldan fugl á þessum velli,“ sagði Tiger Woods eftir sitt fyrsta mót á Oakmont. „Á flestum völlum er hægt að næla í auðveldan fugl hér og þar en á Oakmont er slíkt ekki í boði.“

Völlurinn var opnaður árið 1903. Brautirnar eru þröngar, karginn þykkur og flatirnar oftar en ekki grjótharðar. Það eru 210 sandgryfjur á vellinum eða um 12 gryfjur á hverja einustu, golfholu.

„Flatirnar eru líka einstaklega erfiðar. Þær halla fram og til baka og erfitt að finna góðan lendingarstað. Iðulega renna boltarnir bara út af flötinni. Menn þurfa því að vera ótrúlega klókir í sínum aðgerðum og hugsa fram í tímann. Annars er þér refsað og það grimmilega,“ sagði Tiger Woods sem ber mikla virðingu fyrir vellinum. „Annað væri einfaldlega heimska.“

Mickelson þekkir völlinn líka vel og hann sagði eftir tvo æfingahringi að þessi völlur yrði ekkert auðveldari eftir því sem kylfingar spiluðu oftar á honum.

„Ég held í fullri alvöru að þetta sé erfiðasti völlur í heimi.“

Mótið verður allt í beinni útsendingu á Golfstöðinni og hefst útsending klukkan 17.00 í dag og svo klukkan 16.00 á laugardag og sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×