Arnar Bentsson, Andri Tómas Gunnarsson, Arnór Gauti Hauksson, Einar Sigurjón Oddsson, Haraldur Ómarsson, Sverrir Diego og Þórir Júlíusson eiga það sameiginlegt að styðja vin sinn Kára Árnason fram í rauðan dauðann. Nú er þeirra maður að fara að spila með landsliði Íslands gegn Portúgal á EM í kvöld og auðvitað eru þeir mættir. En það tók sinn tíma.
Strákarnir fóru ólíkar leiðir að því að koma sér til Saint-Étienne þar sem leikurinn fer fram í kvöld. Arnar var ellefu klukkustundir á ferðalagi sínu frá Kaupmannahöfn, þar sem hann býr, til franska bæjarins en enginn var lengur á leiðinni en Andri Tómas og Arnór. 24 klukkustundaferðalag hlýtur að vera einhvers konar met.
Þannig var að hið ótrúlega óhapp varð á flugvellinum í München, þar sem þeir millilentu, að ekið var á flugvélina sem átti að flytja þá áleiðis frá þýsku borginni og til Frakklands. Ellefu tíma bið varð á ferðalaginu af þeim sökum auk annarra hluta sem komu upp á leiðinni.
Strákarnir voru mættir í miðbæ Saint-Étienne í hádeginu í dag, komnir í hamborgara og franskar - þeir sem höfðu lyst, en aðrir voru að koma sér aftur í gang. Það má slá því föstu að hjartslátturinn verður örari þegar þeir sjá sinn mann ganga inn á leikvanginn í kvöld.
