Verðandi forsetahjón, þau Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, hittu núverandi forsetahjón, Ólaf Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, í Nice í Frakklandi í dag en þau ætla öll á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins sem fram fer í kvöld.
Ef sagnfræðin bregst ekki blaðamanni Vísis er þetta í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem verðandi forsetahjón hitta núverandi forsetahjón í kjölfar forsetakjörs.
Sveinn Björnsson lést í embætti og hitti ekki eftirmann sinn, Ásgeir Ásgeirsson. Eiginkona Ásgeirs lést svo árið 1964 en árið 1968 var Kristján Eldjárn kjörinn forseti. Vigdís Finnbogadóttir átti síðan ekki maka, hvorki þegar hún tók við embætti 1980 né þegar hún lét af embætti 1996.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, er í Nice og náði meðfylgjandi myndum af forsetahjónunum tveimur í dag á sögulegri stund ef svo má að orði komast.

